Trackwell er sönn ánægja að greina frá því að fyrirtækið hefur nú innleitt tvö ný fiskveiðieftirlitskerfi (e. Vessel Monitoring System, VMS) í Kyrrahafinu hjá Fiskveiðiráði Kyrrahafseyjanna (Pacific Islands Forum Fisheries Agency, FFA) og Fiskveiðnefnd Vestur- og Mið Kyrrahafs (Western and Central Pacific Fisheries Commission, WCPFC). Hafsvæðið sem heyrir undir þessar stofnanir er um 100 milljónir ferkílómetra að flatarmáli og sér Trackwell um rekstur á kerfinu í samvinnu við skýjaþjónustu Amazon í Ástralíu. Tuttugu og sex ríki eiga aðild að FFA og WCPFC, en auk þeirra eru sjö þátttökuríki með takmarkaða aðild, og önnur sjö sem standa utan aðildar en taka þátt í samstarfinu. Trackwell VMS gerir notendum kleift að fylgjast með margvíslegum þáttum í atferli þúsunda skipa í rauntíma. Þannig geta ríki og stofnanir sinnt eftirliti með sinni efnahagslögsögu, ásamt veiðum á afmörkuðum svæðum. Kerfið heldur utan um veiðar skipa og sér um samskipti þeirra milli aðildarþjóða.

Ný kynslóð af Fiskveiðieftirlitskerfi

Trackwell fiskveiðieftirlitskerfið er í grunninn það sama og það sem gjarnan er nefnt „Fjareftirlitskerfið“ á Íslandi. Kerfið verið sniðið sérstaklega að þörfum stofnana og býður upp á víðtæka vöktun skipa, og ýmsa eftirlits valkosti. Ein af helstu nýjungunum sem Trackwell VMS hefur nú að bjóða er að nú hafa allar aðildarþjóðir FFA og WCPFC aðgang að kerfinu, og að þeim hafsvæðum og þeim skipum sem heyra undir viðkomandi þjóð. Einnig gerir kerfið samstarfs- og aðildarríkjum FFA og WCPFC kleift að veita öðrum aðildarríkjum aðgang að sínum upplýsingum innan kerfisins ef þau svo kjósa, sem eykur stórlega yfirsýn yfir hafsvæðið og þau skip sem þar stunda veiðar. Þessari upplýsingamiðlun geta ríkin stýrt og afmarkað að vild.

Trackwell VMS í allra fremstu röð í heiminum í dag

Björgunaraðgerðir á sjó.

Björgunaraðgerðir á sjó.

Trackwell VMS hefur verið í þróun frá árinu 1996 í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna, Sjávarútvegsráðuneytið, auk fjölda erlendra viðskiptavina. Vaktstöð siglinga nýtir VMS til að sinna sjálfvirkri tilkynningarskyldu, lögbundnu fiskveiðieftirliti, auk miðlunar upplýsinga milli þjóða vegna veiðiheimilda í öðrum lögsögum og til fiskveiðistofnana sem sinna eftirliti með veiðum í úthafi. Með samstarfi sínu við fyrrnefndar stofnanir og sérfræðinga þeirra, hefur Trackwell tekist að þróa VMS í það að verða í fremstu röð fiskveiðieftirlitskerfa. VMS uppfyllir alþjóðlegar reglugerðir og staðla um gagnasamskipti milli ríkja og aðliggjandi eftirlitssvæða, og hefur því verið að ryðja sér til rúms á erlendum mörkuðum. Erlend ríki og stofnanir hafa í sífellt auknum mæli verið að leita til Trackwell eftir fiskveiðieftirlits lausnum. Sem dæmi um viðskiptavini Trackwell í gegnum árin má nefna Grikkland, Albanía, Færeyjar, NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission), NAFO (Northwest Atlantic Fisheries Organization) og SEAFO (South East Atlantic Fisheries Organisation).

„Mikilvægi þessa nýjasta samnings Trackwell við FFA og WCPFC er ekki síst fólgið í því að okkur gafst kjörið tækifæri til að vinna með þessum tveimur leiðandi stofnunum í að þróa og aðlaga kerfið að fjölbreyttu umhverfi og ólíkum hagsmunum Kyrrahafsríkjanna. Þessi lærdómur mun nýtast okkur vel í nýjum verkefnum sem framundan eru.“ – Kolbeinn Gunnarsson, Sviðsstjóri Sjávarútvegssviðs Trackwell.

Stofnanirnar FFA og WCPFC eru mjög velkomin viðbót við viðskiptavinahóp Trackwell og marka samningarnir stór skref fyrir fyrirtækið í átt að því að tryggja Trackwell sem leiðandi þjónustu- og söluaðila Fiskveiðieftirlitskerfa á heimsvísu.

Vöxtur í notkun upplýsingatækni við forðastýringu

Síðan Trackwell var stofnað 1996, þá hefur fyrirtækið sérhæft sig í hugbúnaðargerð með sérstakri áherslu á lausnum tengdum fjarskiptum og staðsetningatækni. Síðastliðinn áratug hefur áhersla Trackwell verið á forðastýringalausnir fyrir fyrirtæki og býður nú upp á fjórar vörulínur:

  • Trackwell VMS – Fiskveiðieftirlitskerfi fyrir yfirvöld og eftirlitsstofnanir
  • Hafsýn – Upplýsingakerfi fyrir skip og útgerðir
  • Tímon – Tíma-, verk- og viðveruskráningarkerfi fyrir allar tegundir fyrirtækja
  • Floti – Flotastýringar fyrir eigendur bíla- og tækjaflota

Í dag nýta yfir 500 fyrirtæki og stofnanir lausnir Trackwell. Um 40.000 starfsmenn nýta Tímon til þess að skrá tíma-, verk- og viðveru sína, og flotastýringarkerfi Trackwell hafa eftirlit með og stýra yfir 15.000 farartækjum. Lausnir og þjónusta frá Trackwell eru í notkun bæði í Norður Ameríku og Evrópu, en með samningum við FFA og WCPFC bætast við notendur í Suður Ameríku, Ástralíu og Asíu.